Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120b. Uppfært til október 1996.


Lög um heilsuvernd í skólum1)

1957 nr. 61 8. júní

1)Lögin falla úr gildi 1. ágúst 1996, sbr. l. 66/1995, 57. gr.


1. gr.
     Rækja skal heilsuvernd í öllum skólum landsins samkvæmt reglum, er menntamálaráðherra setur með ráði heilbrigðisstjórnar.

2. gr.
     Framkvæmd heilsuverndar í skólum er í höndum heilbrigðisstjórnar.

3. gr.
     Sérfróður læknir, skólayfirlæknir landsins, skipaður af heilbrigðismálaráðherra, hefur yfirumsjón með heilsuvernd í skólum landsins og stjórnar starfi heilbrigðisstarfsliðs þess, sem annast hana, sbr. þó fyrri málsgrein 6. gr. Enn fremur hefur hann eftirlit með íþróttastarfsemi í landinu og heilsufari íþróttamanna.
     Skólayfirlæknir tekur laun úr ríkissjóði samkvæmt launalögum, og annar kostnaður við skólayfirlæknisembættið greiðist einnig úr ríkissjóði.

4. gr.
     Við alla skóla landsins skulu vera starfandi skólalæknar. Skólalækningar eru aukastarf læknis, nema sérstaklega sé um annað samið.

5. gr.
     Þar sem völ er á og þegar til þess hefur verið veitt fé, skal heimilt að ráða að skóla hjúkrunarkonu og tannlækni til að gegna þar störfum.

6. gr.
     Þar sem starfandi eru heilsuverndarstöðvar, annast þær, undir umsjón skólayfirlæknis, heilsuvernd í skólum, sbr. heilsuverndarlög, nr. 44 18. maí 1955.1)
     Þar sem ekki eru starfandi heilsuverndarstöðvar, gegna héraðslæknar, undir umsjón skólayfirlæknis, skólalæknisstörfum við alla skóla í héraði sínu. Þó er heilbrigðisstjórn heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði þar, sem nemendafjöldi er að mati hennar meiri en svo, að héraðslækni teljist kleift að annast allt eftirlitið.

1)l. 97/1990, sbr. þó brbákv.


7. gr.
     Heilsuvernd skal nemendum og forráðamönnum þeirra að kostnaðarlausu í öllum skólum, sem reknir eru af ríki eða sveitarfélögum eða styrks njóta af almannafé. Kostnaður við hana telst hluti af rekstrarkostnaði hvers skóla og skiptist milli greiðsluaðila í skólum, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, eftir reglum, er fræðslumálastjórn setur hverju sinni, sbr. lög um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, nr. 41 17. maí 1955.1)

1)l. 49/1967.


8. gr.
     Öllum nemendum og starfsliði skóla er skylt að gangast undir berklaskoðun, eftir því sem fyrir er mælt í lögum og reglum um berklavarnir hverju sinni, og undir skólaskoðun, eftir því sem fyrir er mælt í reglugerð þar að lútandi.

9. gr.
     Í reglugerð1) skal ákveðið um starfssvið og skyldur skólayfirlæknis, ráðningu, starfssvið og skyldur skólalækna, skólahjúkrunarkvenna og skólatannlækna, um þátt skólastjóra og kennara í heilsuverndarstarfi skóla, um tilhögun á skólaeftirliti heilsuverndarstöðva um framkvæmd skólaskoðunar, um heilsuseðla og önnur eyðublöð, um börn, sem byrja skólagöngu fyrr en lög mæla fyrir, um heilbrigðisfræðslu í skólum, um heimild nemenda til að stunda íþróttir utan skólans og til að taka þátt í íþróttakeppni, um undanþágu frá námi og um fjarvistarvottorð.

1)Rg. 214/1958, sbr. 196/1965 og 284/1966.


10. gr.
     Háskóli Íslands er undanþeginn lögum þessum.