Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120b. Uppfært til október 1996.


Lög um fjarskipti

1984 nr. 73 28. maí


I. kafli.
Orðaskýringar.
1. gr.
     [Í lögum þessum merkja orðin:
Fjarskipti: Það sem nefnt er „Télécommunication“ í alþjóðafjarskiptasamningum (nú Convention Internationale des Télécommunications, Nice 1989) og þýðir hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum með rafsegulöldum (radio) eða öðrum rafsegulkerfum.
Almennt fjarskiptanet: Innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.
Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en hljóðvarpi og sjónvarpi.
Talsímaþjónusta: Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um almenna sjálfvirka netið eða netin þannig að hver notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda búnaðar sem tengdur er við annan tengipunkt.
Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
Notendabúnaður: Búnaður ætlaður til að tengjast almennu fjarskiptaneti, þ.e.:
a.
er ætlað að vera beint tengdur við nettengipunkt almenns fjarskiptakerfis eða
b.
er ætlað að virka með almennu fjarskiptaneti beint eða óbeint tengdur við nettengipunkt á netinu í þeim tilgangi að senda, meðhöndla eða taka á móti upplýsingum.
Tenging getur verið með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
Grunnþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem gefur kost á flutningi merkja milli þeirra staða þar sem skil eru milli nets og notanda.
Virðisaukandi þjónusta: Fjarskiptaþjónusta þar sem bætt er við grunnþjónustu þáttum sem auka verðmæti þjónustunnar.
Fjarskiptavirki: Hvers konar tæki, tækjahlutar, leiðslur, búnaður og því um líkt sem sérstaklega er ætlað til að koma á fjarskiptum eða reka þau, hvort heldur er til sendingar eða móttöku.]1)

1)L. 32/1993, 1. gr.


II. kafli.
Réttur til reksturs fjarskipta.
2. gr.
     [Ríkið hefur einkarétt á að veita talsímaþjónustu á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi og að ...1) reka almennt fjarskiptanet. [Samgönguráðherra er heimilt að veita aðila rekstrarleyfi til að annast þá fjarskiptaþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á skv. 1. málsl. Við útgáfu rekstrarleyfis skulu tilteknar þær skyldur og kvaðir sem rekstrarleyfinu fylgja, sbr. 3. mgr. Samgönguráðherra skal hafa eftirlit með því að leyfishafi virði þær kvaðir og skyldur sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi.]1)
     Samgönguráðherra getur heimilað aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, að reka ákveðna tegund fjarskiptaþjónustu, aðra en talsímaþjónustu á almennum fjarskiptanetum, að uppfylltum skilyrðum sem sett verða fyrir viðkomandi þjónustu.
     Samgönguráðherra setur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Þau skulu vera hlutlæg, skýr og þannig að gætt verði jafnræðis. Rökstuðningur skal fylgja synjun leyfisumsóknar.
     Ekki þarf sérstakt leyfi til að veita virðisaukandi þjónustu sem er í samræmi við reglugerð sem samgönguráðherra setur.
     Ekki þarf sérstakt leyfi til að annast sölu á notendabúnaði.
     [Rekstrarleyfishafa skv. 1. mgr.]1) er heimilt að selja sérhverja tegund fjarskiptaþjónustu og búnað að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda gagnvart öðrum aðilum.
     Samgönguráðherra getur heimilað einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að stofna og reka fjarskiptanet til eigin nota eingöngu sem ekki verða nýtt fyrir aðra aðila og ekki tengd almennum fjarskiptanetum.
     Fjarskipti, ...1) þegar eingöngu er um að ræða boð eða upplýsingar innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum eða verksmiðjum, falla sem slík ekki undir ákvæði laga þessara.]2)

1)L. 99/1996, 1. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.2)L. 32/1993, 2. gr.


3. gr.
     [Hver sá, sem flytur inn eða smíðar búnað er tengja á við almennt fjarskiptanet, skal fyrir fram fá yfirlýsingu Fjarskiptaeftirlits ríkisins um að hver og ein tegund eða gerð tegundar búnaðar eða hlutar hans uppfylli þær tæknikröfur sem gilda þar um. Liggi fyrir vottorð frá viðurkenndri prófunarstofu um að búnaður sé í samræmi við staðla og reglur telst staðfesting frá Fjarskiptaeftirlitinu fullnægjandi.
     Þeir sem annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu fjarskiptavirkja skulu hafa til þess tilskilin réttindi samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.]1)

1)L. 32/1993, 3. gr.


4. gr.
     Ráðherra getur látið innsigla fjarskiptavirki sem ekki eru í notkun eða hluta þeirra eða fyrirskipað að fá þau afhent til geymslu undir innsigli. Innsiglið má ekki rjúfa án heimildar ráðherra.

5. gr.
     Fjarskiptavirki í erlendum skipum, flugvélum eða öðrum erlendum farartækjum, sem eru innan íslenskrar landhelgi eða lofthelgi, má aðeins nota samkvæmt ákvæðum íslenskra laga og reglugerða.

III. kafli.
Skylda til þess að hafa fjarskiptabúnað í farartækjum.
6. gr.
     [Ráðherra getur mælt svo fyrir að íslensk skip, loftför og önnur farartæki séu búin fjarskiptavirkjum og setur hann nánari reglugerð þar um.
     Ráðherra getur heimilað með reglugerð að einstaklingar, félög og stofnanir setji upp jarðstöðvar til móttöku á sjónvarpsefni til eigin nota.
     Fjarskiptaeftirlit ríkisins gefur út leyfisbréf til handa þeim aðilum sem með sérstökum lögum eða alþjóðasamþykktum hafa fengið leyfi til eða eru skyldugir til að halda uppi fjarskiptum á ákveðnum sviðum. Í leyfisbréfum skal kveðið á um tæknilega eiginleika fjarskiptavirkja í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl.
     Fjarskiptaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með starfsemi þessara fjarskiptavirkja.]1)

1)L. 32/1993, 4. gr.


IV. kafli.
Stjórn, rekstur og eftirlit fjarskiptamála.
7. gr.
     [Fjarskiptaeftirlit ríkisins starfar undir yfirstjórn samgönguráðherra. Fjarskiptaeftirlit ríkisins annast útgáfu leyfisbréfa, eftirlit með gerð búnaðar og lögboðuðum tækniforskriftum, úthlutun tíðna og eftirlit með skilmálum um notkun. Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir þjónustu Fjarskiptaeftirlits ríkisins.]1)

1)L. 32/1993, 5. gr.


8. gr.
     ...1)

1)L. 99/1996, 2. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


9. gr.
     [Samgönguráðherra setur í reglugerð1) nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála, eftirlit með þeim og annað er þar að lýtur. Honum er heimilt að setja reglugerðir á sviði fjarskipta að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.]2)

1) 2)L. 32/1993, 5. gr.


V. kafli.
Uppsetning og vernd fjarskiptavirkja o.fl.
10. gr.
     Sérhver eigandi eða umráðamaður fasteignar er skyldur að leyfa [þeim sem rekstrarleyfi hefur skv. 1. mgr. 2. gr.]1) að leggja leiðslur fjarskiptavirkja um land sitt, yfir það eða í jörðu, yfir hús eða önnur mannvirki á landinu, á þeim, gegnum þau eða undir þeim. Hafa skal samráð við eigendur eða umráðamenn mannvirkja um hvar leiðslur, sem snerta eign þeirra, séu lagðar eða efni tekið, enda hafi það engan verulegan kostnaðarauka eða önnur vandkvæði í för með sér.
     [Menn, sem á grundvelli 1. mgr.]1) þurfa að fara um lendur eða híbýli vegna starfa sinna, skulu forðast að valda eigendum eða íbúum meiri óþægindum en brýnasta nauðsyn krefur.

1)L. 99/1996, 3. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


11. gr.
     Þar sem fjarskiptavirki [rekstrarleyfishafa]1) eru má ekki reisa mannvirki, setja upp tæki, leggja pípur, raflagnir, leiðslur og því um líkt, gera jarðrask eða aðrar ráðstafanir er af geta hlotist skemmdir á fjarskiptavirkjum eða truflanir á rekstri þeirra, nema áður hafi verið aflað upplýsinga um legu þeirra og samkomulag fengist við [rekstrarleyfishafa]1) um tilhögun framkvæmda. Þeir sem ákveða slíkar framkvæmdir eða þeir sem annast þær bera allan kostnað sem af þeim leiðir, beinan og óbeinan, nema annað hafi orðið að samkomulagi.
     Ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa óvænt eða af gáleysi valdið skemmdum á fjarskiptavirkjum eða truflunum á rekstri þeirra skal sá, er þeim hefur valdið, þegar í stað tilkynna það [rekstrarleyfishafa]1) og jafnframt greiða allan kostnað sem af því leiðir, bæði beinan og óbeinan, t.d. viðskiptatap, nema annað verði að samkomulagi.
     Hafi einhver umráð yfir einhvers konar mannvirkjum, tækjum, pípum, raflögnum, leiðslum og því um líku sem valdið geta truflunum á rekstri [fjarskiptavirkja rekstrarleyfishafa er honum]1) heimilt að gera á kostnað eiganda nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir baga þann sem af þessu hlýst eða getur hlotist á fjarskiptavirkjum.

1)L. 99/1996, 4. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


12. gr.
     Þegar skip er innan eða utan landhelgi að starfa að lagningu eða viðgerð fjarskiptastrengja og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa þetta til kynna skulu önnur skip, sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki, halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá sæsímaskipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa 12 stunda frest til þess að taka burtu veiðarfæri sem í sjó liggja.
     Nú hefur dufli verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á sæstreng fjarskiptavirkja og skulu skip þá halda sig og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.

13. gr.
     Ef skip hefur orðið að sleppa akkeri eða leggja net eða önnur veiðarfæri í sölurnar til þess að komast hjá því að skemma sæstrengi fjarskiptavirkja, enda hafi skipið sjálft ekki stofnað til hættunnar af gáleysi, þá á það kröfu til skaðabóta frá eiganda strengjanna. Ef unnt er skal þegar færa til bókar skýrslu um tjónið, staðfesta af skipverjum. Svo skal og skipstjóri gefa sjóferðarskýrslu um tjónið í fyrstu höfn sem því verður við komið. Formaður dóms, er við sjóferðarskýrslu tekur, skal þegar tilkynna eiganda sæstrengjanna um tjónið.

14. gr.
     Ef afla þarf lóðar eða annarrar eignar í sambandi við lagningu eða rekstur fjarskiptavirkja ...1) og samningum um kaup verður ekki við komið má [rekstrarleyfishafi],1) að fengnu samþykki ráðherra, taka eignina eignarnámi gegn endurgjaldi sem metið sé eftir eignarnámslögum.
     [Skylt er þeim sem á eða rekur fjarskiptavirki að bæta tjón á landi manna, mannvirkjum eða öðrum eignum sem hlotist hefur af lagningu eða viðhaldi fjarskiptavirkja.]1) Verði samningum ekki komið við skulu bæturnar metnar samkvæmt lögum (nú lögum nr. 11/1973).

1)L. 99/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


VI. kafli.
Leynd og vernd fjarskipta.
15. gr.
     Allir starfsmenn fjarskiptavirkja [rekstrarleyfishafa]1) skulu skyldir, bæði meðan þeir gegna starfinu og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir öllum út í frá efni skeyta sem koma eða fara, svo og að þau hafi komið eða farið og hver hafi fengið þau eða sent. Þeir skulu og halda leyndu fyrir öllum út í frá efni samtala um fjarskiptavirki ...,1) svo og að samtöl hafi farið fram og hverjir hafi átt tal saman. Ekki má án undangengins dómsúrskurðar veita óviðkomandi mönnum aðgang að því að sjá skeyti eða önnur starfræksluskjöl, sem almenningi er ekki ætlað að sjá, eða aðgang að því að hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Ráðherra ákveður hvort slíkum úrskurði skuli áfrýjað. Sams konar leyndarskylda skal á þeim hvíla um myndir eða merki sem flutt hafa verið um fjarskiptavirkin og ekki eru fyrir almenning. Þeim er og stranglega bannað að notfæra sér á nokkurn hátt persónulega innihald slíkra skeyta, samtala, mynda, merkja eða starfræksluskjala. Ráðherra setur í reglugerð2) nánari fyrirmæli um þagnarskyldu starfsmanna fjarskiptavirkja.

1)L. 99/1996, 6. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.2)Rg. 83/1986.


16. gr.
     Enginn starfsmaður [við fjarskiptavirki]1) má ónýta, aflaga eða skjóta undan skeytum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til flutnings um fjarskiptavirkin eða liðsinna öðrum í þess konar athæfi.

1)L. 99/1996, 7. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


17. gr.
     [Í leyfisbréfum, er Fjarskiptaeftirlit ríkisins gefur út skv. 6. gr. laga þessara, skal leggja á starfsmenn við fjarskiptavirki sem leyfisbréfið hljóðar um sams konar skyldur og mælt er fyrir um í 15. og 16. gr., enda varði brot á þeim skyldum sömu viðurlögum og mælt er fyrir um í lögum þessum. Sama gildir um þá sem fá réttindi til uppsetningar og tengingar fjarskiptavirkja skv. 3. gr.]1)

1)L. 99/1996, 8. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


18. gr.
     Sá sem með einhverjum hætti án heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum eða hlustar á fjarskiptasamtöl má ekki skrá neitt slíkt, tilkynna það öðrum eða notfæra sér það á nokkurn hátt.

VII. kafli.
Stöðvun fjarskipta.
19. gr.
     Ríkisstjórnin getur stöðvað skeyti, símtöl eða önnur fjarskipti sem teljast hættuleg öryggi ríkisins eða brjóta í bága við lög landsins og almennt velsæmi.

VIII. kafli.
Fjarskiptavirki á hættutímum.
20. gr.
     Á ófriðartímum og þegar það telst nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins getur ríkisstjórnin fyrirskipað að engir aðrir en þeir, sem heimild hafa til þess frá [samgönguráðherra],1) megi eiga eða hafa í vörslum sínum tilteknar tegundir fjarskiptavirkja eða hluti sem eru sérstaklega ætlaðir í þau og ekki heldur aðrar tilteknar tegundir tækja sem nota má til þess að koma á fjarskiptum.

1)L. 99/1996, 9. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


21. gr.
     Nú á maður eða hefur í vörslum sínum einhver slík fjarskiptavirki eða tæki sem nefnd eru í fyrirmælum ríkisstjórnarinnar samkvæmt 20. gr. og skal hann þá þegar í stað tilkynna [samgönguráðherra]1) það og afhenda [honum]1) fjarskiptavirkin eða tækin eða hluta þeirra eftir því sem [hann]1) mælir fyrir um. Komi endurgjald til greina greiðist það úr ríkissjóði samkvæmt mati dómkvaddra manna.

1)L. 99/1996, 10. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


IX. kafli.
Milliríkjasamningar.
22. gr.
     Alþjóðasamningar og aðrir milliríkjasamningar um fjarskiptamál, sem ríkisstjórn Íslands fullgildir og Alþingi staðfestir, skulu ásamt þar að lútandi reglugerðum gilda sem lög.

X. kafli.
[Viðurlög við brotum á lögum þessum, takmörkun ábyrgðar o.fl.]1)

1)L. 99/1996, 11. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.

23. gr.
     1. Brot gegn 2.–6. gr., 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. varðar sektum eða varðhaldi ef miklar sakir eru. Upptæk skal gera tæki þau og hluti sem í heimildarleysi hafa verið flutt inn, smíðuð eða starfrækt.
2.
Valdi maður af ásettu ráði eða gáleysi truflun eða skemmdum á fjarskiptavirkjum þá varðar það sektum, nema verki sé svo farið að það eigi að varða refsingu eftir því sem í 176. gr. almennra hegningarlaga segir. Sá sem skemmdum eða truflun hefur valdið skal bæta allt tjón sem af því hefur hlotist, þar með talið viðskiptatap.
3.
[Brot gegn 15.–17. gr. varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári, en allt að þremur árum ef sakir eru miklar. Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum.]1)
4.
...1)
5.
Brot gegn 18. gr. varðar sektum samkvæmt 1. mgr. 228. gr. almennra hegningarlaga.
6.
Brot gegn 20. og 21. gr. og fyrirmælum, er ráðherra setur samkvæmt þeim, varðar varðhaldi eða fangelsi. Þó má beita sektum ef sök er smávægileg eða sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
7.
Brot gegn 22. gr. varðar sektum eða varðhaldi ef miklar sakir eru.
8.
Þann, sem ekki stendur skil á áföllnum gjöldum á réttum gjalddaga fyrir fjarskipti eða afnot fjarskiptavirkja, má útiloka algerlega frá öllum fjarskiptum, hvort heldur er til hans eða frá honum, um óákveðinn tíma, þar til hann hefur greitt skuld sína að fullu.
[9.
Rekstrarleyfishafi skv. 1. mgr. 2. gr. laganna skal undanþeginn bótaábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins, eða mistaka við afgreiðslu símskeyta, hvort sem rekja má slíkt til línubilana, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna. Slík ábyrgðartakmörkun er þó bundin við að tjónið verði ekki rakið til stórfelldra mistaka starfsmanna rekstrarleyfishafa.]1)
[10.]
1)Ákveða má í reglugerðum sem settar verða samkvæmt lögum þessum að brot gegn ákvæðum þeirra varði refsingum samkvæmt lögunum.

1)L. 99/1996, 12. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


[24. gr.
     Eigi síðar en 1. júlí 1998 skal notkunargjald fyrir talsímaþjónustu vera hið sama alls staðar á landinu og skal innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil.]1)

1)L. 99/1996, 13. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


[25. gr.]1)
     Lög þessi öðlast þegar gildi. ...

1)L. 99/1996, 13. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


[Ákvæði til bráðabirgða.
     Þegar Póstur og sími hf. tekur til starfa veitir samgönguráðherra félaginu rekstrarleyfi skv. 1. mgr. 2. gr. laga þessara og skal það rekstrarleyfi gilda þar til réttur til að veita einkaleyfi til almenns fjarskiptareksturs fellur niður samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Á sama tíma skal öðrum óheimilt að eiga eða reka almennt fjarskiptanet.]1)

1)L. 99/1996, 14. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.